Körfubolti

Bryant frestar aðgerð á fingri

Keppnismaðurinn Kobe Bryant ætlar enn að fresta því að fara í aðgerð
Keppnismaðurinn Kobe Bryant ætlar enn að fresta því að fara í aðgerð NordicPhotos/GettyImages

Stjörnuleikmaðurinn Kobe Bryant hjá LA Lakers hefur ákveðið að fresta enn og aftur að fara í aðgerð á litlafingri hægri handar eftir að hafa meiðst á honum í febrúar sl.

Bryant hefði helst þurft að fara í aðgerð strax í febrúar, en frestaði því og ætlaði upphaflega að fara í aðgerð í sumar. Hann frestaði því á ný vegna anna með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking.

Nú hefur kappinn enn á ný ákveðið að fresta aðgerðinni, því hann segist ekki vera tilbúinn að missa úr þær tólf vikur sem reiknað er með að hann þurfi til að jafna sig eftir aðgerðina.

"Þegar læknarnir sögðu mér að endurhæfingin tæki jafnlangan tíma og raun ber vitni, ákvað ég að fresta þessu enn um sinn. Ég vil ekki missa úr tíma í ljósi þess sem við hjá Lakers ætlum okkur næsta vetur," sagði Bryant á heimasíðu sinni.

Búist er við því að Bryant og spænski landsliðsmaðurinn Pau Gasol muni þurfa að púla minna en aðrir leikmenn í herbúðum Lakers í haust, þar sem þeir voru báðir á fullu með landsliðum sínum í sumar.

Phil Jackson, þjálfari Lakers, var vanur að gefa mönnum eins og Michael Jordan og Scottie Pippen tíma til að hvíla þegar hann var þjálfari Chicago Bulls á sínum tíma og það sama verður væntanlega uppi á teningnum með Bryant og Gasol að þessu sinni.

Æfingabúðir Lakers-liðsins hefjast þann 27. september nk og fyrsti leikur liðsins í deildarkeppninni verður gegn Portland Trailblazers þann 28. október í Staples Center.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×