Enski boltinn

Uefa bikarinn: Lítill glans á ensku liðunum

David James gerði dýr mistök í marki Portsmouth í kvöld
David James gerði dýr mistök í marki Portsmouth í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Tvö ensk lið voru í eldlínunni í Evrópukeppni félagsliða í kvöld. Portsmouth féll úr leik eftir 3-2 tap gegn þýska liðinu Wolfsburg en Aston Villa er komið áfram í 32-liða þrátt fyrir neyðarlegt 2-1 tap á heimavelli fyrir MSK Zilina frá Slóvakíu.

Portsmouth byrjaði hræðilega í Þýskalandi í kvöld og lenti undir 1-0 eftir aðeins þrjár mínútur. Jermain Defoe jafnaði fyrir Portsmouth á 11. mínútu og Arnold Mvuemba kom liðinu reyndar yfir þremur mínútum síðar.

Heimamenn jöfnuðu svo á 23. mínútu og þannig var staðan allt þar til á 74. mínútu þegar Zvjezdan Misimovic tryggði Wolfsburg sigurinn eftir herfileg mistök David James í markinu.

Hann bætti reyndar fyrir það að nokkru leyti skömmu síðar þegar hann varði vítaspyrnu, en Portsmouth varð að sætta sig við tap og er úr leik í keppninni. Liðið er aðeins með eitt stig eftir þrjá leiki og á ekki möguleika á að komast áfram.

Í hinum leiknum í E-riðli vann Braga 2-1 sigur á Heerenveen frá Hollandi.

Aston Villa tapaði sem fyrr segir 2-1 fyrir lágt skrifuðum andstæðingum sínum frá Slóvakíu á heimavelli, en Hamburg vann á sama tíma 2-0 sigur á Slavia Prag og það þýddi að Villa var öruggt með þriðja sætið í riðlinum. Það var Nathan Delfouneso sem skoraði mark Villa á 28. mínútu eftir að gestirnir höfðu komist í 2-0 snemma í leiknum.

Í G-riðlinum gerðu Valencia og Club Brugge 1-1 jafntefli líkt og FCK og Rosenborg. Riðilinn er galopinn en þar er franska liðið St. Etienne á toppnum með 7 stig og Valencia hefur 5.

Í H-riðlinum gerðu svo Lech Poznan og Deportivo 1-1 jafntefli og CSKA Moskva vann 4-3 útisigur á Nancy frá Frakklandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×