Erlent

Talibanar banna sjónvarpsgláp

Óli Tynes skrifar
Er.....hvað er nú aftur sjónvarp?
Er.....hvað er nú aftur sjónvarp?

Talibanar í Afganistan hafa bannað íbúum í Logar héraði að horfa á sjónvarp. Logar er nálægt höfuðborginni Kabúl og Talibanar hafa þar töglin og hagldirnar.

Talsmaður upplýsingaráðuneytis Afganistans sagði fréttamönnum að vopnaðir og grímuklæddir talibanar hefðu komið inn í bænahús í héraðinu og hótað fólki ofbeldi ef það hætti ekki að horfa á sjónvarp. Þeir sögðu dagskrár sjónvarpsstöðvanna vera and-islamiskar.

Á meðan Talibanar réðu Afganistan bönnuðu þeir bæði sjónvarp, kvikmyndir og tónlist. Síðan þeim var steypt af stóli árið 2001 hafa sjónvarps- og útvarpsstöðvar rokið upp eins og gorkúlur.

Undanfarna mánuði hafa Talibanar einnig skipað endurvarpsstöðvum fyrir farsíma að loka stöðvunum á kvöldin. Þeir segja að bandarískir hermenn noti farsímakerfið til þess að staðsetja þá.

Þá hafa Talibanar einnig varað stúlkur við því að sækja skóla. Menntun kvenna var bönnuð meðan þeir réðu ríkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×