Íslenski boltinn

Helena Ólafs: Mætum í hefndarhug gegn Blikum

Helena Ólafsdóttir, þjálfari KR ásamt Olgu Færseth.
Helena Ólafsdóttir, þjálfari KR ásamt Olgu Færseth.

KR og Breiðablik mætast í dag í seinni undanúrslitaleik VISA-bikars kvenna í fótbolta. Leikurinn, sem fer fram á KR-velli, hefst kl. 16 . Helena Ólafsdóttir, þjálfari KR, segir að sínar stúlkur séu klárar í slaginn.

KR-stúlkur unnu topplið Vals í síðustu viku og segir Helena að sá sigur gefi þeim byr undir báða vængi. Jafnframt vonast hún til að sitt lið mæti í hefndarhug gegn Breiðabliki eftir tap gegn þeim í lok júlí. „Hugarfarið skiptir öllu. Við munum mæta einbeittar og í hefndarhug gegn Blikum. Það er alveg ljóst," segir Helena.

Aðspurð um undirbúninginn segir Helena að hann hafi verið svolítið skrýtinn. „Það var ekki auðvelt að fara að undirbúa liðið leikinn eftir lætin í kringum landsleikinn í handbolta í gær," segir Helena og hlær.

Hún segir liðin vera nokkuð áþekk að getu. „Breiðablik er með gott lið sem hefur ekki tapað í átta eða níu leikjum í röð. Við þurfum því okkar besta leik til að sigra þær. En við eigum titil að verja og ætlum ekki að gefa hann frá okkur svo auðveldlega," segir Helena.

Sigurvegarinn í leiknum í dag mætir Val í úrslitaleik en Valur bar sigurorð af Stjörnunni, 5-1, í Garðabæ í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×