Erlent

Fullkomni bæjarstjórinn í fangelsi

Óli Tynes skrifar
Peter Brixtofte
Peter Brixtofte MYND/TV2 Danmörku

Peter Brixtofte fyrrverandi bæjarstjóri í Farum í Danmörku í var í dag í hæstarétti dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir stórfellda spillingu og umboðssvik.

Brixtofte naut í upphafi mikilla vinsælda og virðingar. Hann þótti hafa skapað hið fullkomna bæjarfélag. Eftirlaunaþegar voru sendir í frí til sólarlanda.

Aðlögun innflytjenda að bæjarfélaginu þótti til fyrirmyndar og fótboltaklúbbur bæjarins var í huga bæjarstjórans á góðri leið með að verða nýtt Manchester United.

Blaðran sprakk í febrúar árið 2002 þegar danska blaðið BT birti fyrirsögnina: "Drakk fyrir 2.3 milljónir króna." Hver sprengjan fylgdi svo af annarri og opinber rannsókn hófst.

Fyrst fauk bæjarstjórakeðjan, svo fuku vinirnir og svo fauk hjónabandið. Nú er frelsið líka fokið næstu tvö árin.

Málinu er þó hvergi nærri lokið, því dómstólar eiga enn eftir að fjalla um nokkur ákæruatriði. Meðal annars rauðvínsreikninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×