Erlent

Flugfélög grípa til neyðarráðstafana

Óli Tynes skrifar
Flugfélög um allan heim berjast fyrir lífi sínu.
Flugfélög um allan heim berjast fyrir lífi sínu.

Flugfélög um allan heim gera nú margvíslegar neyðarráðstafanir til þess að reyna að mæta gríðarlegum hækkunum á eldsneyti.

Meðal ráðstafana sem flugfélögin hafa gripið til er að hækka verð, leggja á aukafjöld, sameina flug, minnka sætaframboð og fljúga hægar en áður.

Eldsneyti hefur hækkað um 170 prósent frá byrjun síðasta árs. Gengið er út frá því að mörg minni flugfélög muni leggja upp laupana á þessu ári.

American Airlines, sem er eitt stærsta flugfélag í heimi tilkynnti í gær að það myndi minnka sætaframboð sitt í innanlandsflugi um 11-12 prósent.

American ætlar einnig að segja upp þúsundum starfsmanna og byrja að taka gjald af farþegum fyrir að innrita farangur sinn.

Quantas í Ástralíu hefur hækkað verð á farmiðum sínum tvisvar á einum mánuði. Japan Airlines segist neyðast til þess að leggja auka eldsneytisskatt á sína farmiða.

Íslensku flugfélögin hafa brugðist við þessum verðhækkunum með ýmsu móti.

Iceland Express hefur til dæmis sameinað flug til áfangastaða í Evrópu. Félagið segist gera þetta í byrjun sumars á áætlunarstöðum þar sem enn eru mjög fáir farþegar.

Forstjóri Air Canada býst við að farþegum í flugi muni fækka í öllum heiminum. Flugfélögin neyðist til þess að hækka verðið.

Það eigi eftir að koma í ljós hversu mikla hækkun markaðurinn þoli áður en bókanir fara að minnka.

Forstjórin segir að hver þriggja dollara hækkun á olíufatinu hækki eldsneytiskostnað félagsins um 75 milljónir dollara á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×