Fótbolti

Eiður: Ég gefst aldrei upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári fagnar marki sínu í gær.
Eiður Smári fagnar marki sínu í gær. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir að það fari í taugarnar á honum þegar að hæfileikar hans á knattspyrnuvellinum eru dregnir í efa.

Hann skoraði sigurmark leiks Barcelona og Real Betis í gær eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Þetta var hans fyrsta deildarmark með Börsungum síðan í janúar.

„Síðustu tvö ár hafa ekki verið mér auðveld fyrir mig eða liðið. Sigur eins og þessi getur hjálpað okkur," sagði hann.

„Ég get hjálpað til og hef mikið fram að færa. Ég klæðist treyjunni stoltur og hef alltaf sagt að ég muni aldrei gefast upp. Ég hef alltaf lagt mikla vinnu á mig en það er það eina sem ég get gert á svona erfiðleikatímum. Það fer í taugarnar á mér þegar geta mín er dregin í efa."

„Þegar liðið eins og Barcelona gengur illa er alltaf leitað af blórabögglum og á undanförnum árum höfum við allir lent í því," bætti hann við.

Hann var vitanlega ánægður með markið en sagði sigurinn hafa verið liðsheildinni að þakka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×