Fótbolti

Eiður skoraði í stórsigri Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Félagar Eiðs Smára fagna marki hans í kvöld.
Félagar Eiðs Smára fagna marki hans í kvöld. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen var í byrjunarliði Barcelona gegn Valladolid í kvöld og skoraði eitt marka liðsins í 6-0 stórsigri Börsunga.

Það var þó Samuel Eto'o sem var hetja Börsunga í kvöld en hann skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins og öll í fyrri hálfleik. Eiður skoraði sitt mark á 71. mínútu og Thierry Henry innsiglaði sigurinn með marki á 83. mínútu.

Það var einmitt Eto'o sem lagði upp mark Eiðs Smára. Eto'o fékk boltann skyndilega og gaf hann á Eið sem átti í litlum vandræðum með að skora.

Eiður fékk líka fínt færi í upphafi leiksins en hann skallaði rétt yfir mark Valladolid. Honum var skipt út af á 72. mínútu fyrir Seydou Keita.

Barcelona endurheimti þar með toppsæti deildarinnar og er nú með 25 stig. Real Madrid er í öðru sæti með 23 stig eftir sigur á Malaga fyrr í kvöld, 4-3.

Gonzalo Higuin skoraði öll fjögur mörk Real Madrid í kvöld, þar af eitt úr víti. Eliseu, Nabil Baha og Apono skoruðu mörk Malaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×