Erlent

Flugræningi í vinnu hjá British Airways

Óli Tynes skrifar
British Airways, með flugræningja í vinnu.
British Airways, með flugræningja í vinnu.

Lögreglumenn á Heathrow flugvelli urðu meira en lítið undrandi þegar ökumaður bifreiðar sem þeir stöðvuðu reyndist vera starfsmaður hjá British Airways, og fyrrverandi flugræningi.

Nazamuddin Mohammiddy er einn átta Afgana sem rændu þotu í innanlandsflugi í Afganistan fyrir átta árum.

Þeir voru vopnaðir byssum og handsprengjum. Þeir skipuðu áhöfninni að fljúga til Bretlands.

Þar hófst fjögurra daga umsátur á Stansted flugvelli, þar sem ræningjarnir hótuðu margsinnis að sprengja vélina í loft upp með 173 farþegum og áhöfn ef þeir fengju ekki hæli sem pólitískir flóttamenn.

Þeir gáfust loks upp og voru dregnir fyrir dóm. Þar var Mohammiddy og félagar dæmdir í þrjátíu mánaða fangelsi. Þeim dómi var hinsvegar snúið á þeim forsendum að þeir hefðu verið að flýja ógnarstjórn Talibana.

Þeim var svo veitt landvistarleyfi í Bretlandi ásamt fjölskyldum þeirra. Það vakti mikla reiði almennings í Bretlandi.

Þegar lögreglumennirnir sem stöðvuðu Mohamiddy höfðu samband við höfuðstöðvar sínar kom í ljós að hann hafði rofið skilorð.

Hann hafði komið fyrir rétt fyrir að berja leigusala sinn og þá gefið upp rangt heimilisfang. Hann var því handtekinn aftur, en dómari veitti honum aftur skilorð þannig að hann gengur nú laus.

Þegar hann sótti um vinnu sína við hreingerningar mun hann ekki hafa nefnt flugránið á umsóknareyðublaðinu þar sem spurt var um reynslu og fyrri störf. Óljóst er hvort hann heldur vinnunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×