Fótbolti

Roma á gríðarlega erfitt verkefni fyrir höndum

NordcPhotos/GettyImages

Ekki er hægt að segja að Roma hafi söguna á bandi sér þegar liðið mætir Manchester United á Old Trafford í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudagskvöldið.

Roma og United hafa fimm sinnum mæst í Meistaradeildinni og hafa allir leikirnir verið spilaðir síðan í apríl á síðasta ári. Roma hefur aðeins unnið einn þeirra, gert eitt jafntefli og tapað rest.

Manchester United hefur tekið 14 sinnum á móti ítölskum liðum í Meistaradeildinni á Old Trafford þar sem liðið hefur unnið 10 þeirra og tapað aðeins tveimur.

Roma hefur 13 sinnum spilað við ensk lið á útivelli og hefur aðeins unnið einu sinni, gert fjögur jafntefli og tapað átta sinnum. Eini sigur Roma á Englandi var 1-0 sigur á Liverpool í Uefa keppninni árið 2001, en það var í fjórðungsúrslitum keppninnar og þar fór Liverpool áfram eftir 2-0 sigur í Róm.

Þá er árangur United á heimavelli í Meistaradeildinni ekki beint hvetjandi fyrir Rómverja, þar sem enska liðið hefur unnið síðustu 10 heimaleiki sína í röð. Ef United vinnur Roma á miðvikudagskvöldið, slær það met sem það á í dag með Juventus yfir flesta heimasigra í röð í Meistaradeildinni.

United hefur ekki tapað á heimavelli í Meistaradeildinni síðan liðið tapaði 1-0 þar fyrir Milan í febrúar árið 2005. Aðeins United og Barcelona eru taplaus í Meistaradeildinni í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×