Sport

Thanou fékk silfrið hennar Jones

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marion Jones með gullið í Sydney, Thanou með silfrið og Tanya Lawrence frá Jamaíku með bronsið.
Marion Jones með gullið í Sydney, Thanou með silfrið og Tanya Lawrence frá Jamaíku með bronsið. Nordic Photos / Getty Images

Gríski spretthlauparinn Katerina Thanou hefur fengið silfrið fyrir 100 metra hlaup kvenna á HM í Edmonton í Kanada árið 2001 sem Marion Jones vann upphaflega.

Jones hefur játað neyslu ólöglegra lyfja og úrskurðaði Alþjóða frjálsíþróttasambandið (IAAF) að hún skyldi skila öllum þeim verðlaunum sem hún vann frá september árið 2000.

Sambandið var hins vegar tregt til að afhenda Thanou silfrið þar sem hún hefur sjálf farið í keppnisbann vegna lyfjamáls. Hún sleppti þremur lyfjaprófum skömmu fyrir Ólympíuleikana í Aþenu árið 2004 og var í kjölfarið dæmd í keppnisbann í tvö ár.

Alþjóða Ólympíusambandið hefur hins vegar ekki enn ákveðið hvað eigi að gera við þau fimm verðlaun sem Marion Jones vann sér inn á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000.

Í 100 metra hlaupi kvenna á þeim leikum vann Jones gullið og Thanou fékk silfur. Samkvæmt úrskurði IAAF nú ætti Thanou að fá þau verðlaun einnig en Ólympíusambandið hefur gefið til kynna að það muni fylgja fordæmi IAAF.

„Það er ekkert annað sem okkur var stætt á að gera," sagði Nick Davies, talsmaður IAAF. „Það liggja engin sönnunargögn fyrir að Thanou hafi brotið í bága við lyfjalög sambandsins á þessum tíma sem þýðir að okkur er skylt að afhenda henni verðlaunin."

En það er ljóst að forráðamenn IAAF gera þetta með óbragð í munni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×