Körfubolti

NBA í nótt: Dallas, Denver og Golden State jöfn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Monta Ellis var öflugur í liði Golden State í nótt.
Monta Ellis var öflugur í liði Golden State í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Það stefnir í ótrúlega spennandi baráttu um sjöunda og áttunda sætið í Vesturdeildinni en sem stendur eru Denver, Dallas og Golden State með jafnan árangur þegar þau eiga níu leiki eftir á tímabilinu.

En það er ljóst að Dallas stendur fremur illa að vígi. Liðið verður án Dirk Nowitzky næstu vikuna að minnsta kosti en liðið hefur tapað fimm af síðustu sex leikjum sínum.

Dallas mætir Golden State aðfaranótt fimmtudags og verður mikið undir í þeim leik.

Þessi lið mættust einmitt í nótt og þá bar Golden State sigur úr býtum, 114-104, á heimavelli. Leikurinn á miðvikudaginn verður í Dallas.

Ef tímabilinu myndi ljúka í dag myndi Golden State missa af úrslitakeppninni þar sem liðið hefur tapað tveimur af þremur leikjum sínum gegn bæði Dallas og Denver á tímabilinu. Golden State á hins vegar eftir að mæta báðum liðunum einu sinni í viðbót og með sigri jafnar liðið þennan innbyrðisárangur.

Ef Dallas kæmist ekki áfram yrði það mikið áfall enda komst liðið í úrslit gegn Miami árið 2006 og vann 67 leiki í deildinni í fyrra. Liðið hefur einnig styrkt sig með því að bæta Jason Kidd við leikmannahópinn.

Golden State var með frumkvæðið í leiknum í nótt en munurinn varð minnstur fjögur stig í fjórða leikhluta. En heimamenn kláruðu þó dæmið örugglega.

Monta Ellis skoraði 30 stig fyrir Golden State og Josh Howard 36 fyrir Dallas. Jason Kidd var aðeins einu frákasti frá sinni 100. þrefaldri tvennu á ferlinum en hann skoraði þrettán stig, gaf fjórtán stoðsendingar og tók níu fráköst.

Það var einnig uppgjör tveggja toppliða í vestrinu í nótt er San Antonio vann Houston, 109-88. Þar með er San Antonio í öðru sæti deildarinnar með jafn góðan árangur og topplið New Orleans en Houston er nú í sjötta sæti, en aðeins með örlítið verri árangur en toppliðin tvö.

Tony Parker og Michael Finley skoruðu 22 stig fyrir San Antonio hver Luis Scola var stigahæstur leikmanna Houston með 24 stig.

New Orleans vann Toronto, 118-111, og þar með hefur liðið unnið 50 leiki á tímabilinu. Það er í fyrsta sinn sem það gerist síðan tímabilið 1997-98. David West skoraði 32 stig fyrir New Orleans í leiknum.

LA Lakers er í þriðja sæti í vestrinu og vann Washington í nótt, 126-120, í framlengdum leik. Koby Bryant skoraði 26 stig en Lakers hafði fyrir leikinn í nótt tapað tveimur í röð.

Caron Butler jafnaði metin fyrir Washington í venjulegum leiktíma með því að skora úr þriggja stiga skoti þegar tíu sekúndur voru til leiksloka. Lakers var með ellefu stiga forystu í hálfleik, 58-47, en það dró saman með liðinum fljótlega eftir það.

DeShawn Stevenson skoraði 27 stig fyrir Washington og var stigahæsti leikmaður liðsins.

Utah Jazz á enn í tómum vandræðum með litlu liðin og tapaði í nótt fyrir Minnesota, 110-103. Af efstu liðunum sex í vestrinu er Utah með versta árangurinn en þar sem liðið er með forystu í Norðvesturriðlinum fellur fjórða sætið í vestrinu því í hlut.

Liðið á þó litla hættu á því að missa toppsætið sitt í riðlinum og því líklegast að fjórða sætið verði hlutskipti þess í lok deildakeppninnar.

Al Jefferson skoraði 22 stig fyrir Minnesota en Carlos Boozer skoraði 25 stig fyrir Utah.

Í austrinu ríkir mesta spennan um hvort Atlanta eða New Jersey nái áttunda sætinu og þar með því síðasta í úrslitakeppninni og verða þar með væntanlega mótherji Boston í fyrstu umferðinni.

Atlanta vann New York, 114-109, og er nú með þokkalegt forskot á New Jersey sem eru sennilega að missa af lestinni.

Marvin Williams, Joe Johnson og Al Horford voru allir með tvöfaldar tvennur fyrir Atlanta í nótt. Williams var stigahæstur með 27 stig en Jamal Crawford var stigahæstur hjá New York með 39 stig.

Boston vann Miami, 88-62, en síðarnefnda liðið skoraði aðeins sautján körfur utan af velli sem er það lægsta í sögu NBA-deildarinnar síðan að skotklukkan var kynnt til sögunnar.

Stigaskorun var mjög dreifð hjá báðum liðum en Leon Powe var stigahæstur leikmanna Boston með sautján stig en þeir Chris Quinn og Ricky Davis skoruðu fjórtán hver fyrir Miami.

Powe var líka eini leikmaðurinn sem komst yfir tuginn í öðrum tölfræðiþætti en stigaskori en hann tók þrettán fráköst.

Cleveland vann Philadelphia, 91-88. LeBron James skoraði mikilvæga körfu þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka og dugði það til sigurs. Hann skoraði 26 stig í leiknum en stigahæstur hjá Philadelphia var Andre Iguodala með nítján stig.

Að síðustu vann Sacramento sigur á Seattle, 120-107. Kevin Martin skoraði 31 stig í leiknum.

Staðan í deildinni

Úrslitakeppnin eins og staðan er nú

NBA-bloggið á Vísi 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×