Körfubolti

Isiah Thomas ástæðan fyrir langlífi Mutombo?

NordcPhotos/GettyImages

Miðherjinn Dikembe Mutombo hjá Houston Rockets verður heiðraður með sérstökum hætti í kvöld þar sem forseti NBA deildarinnar David Stern verður viðstaddur.

Mutombo er elsti leikmaður deildarinnar, 41 árs gamall, og er á sínu 17. ári í deildinni. Í samtali við Houston Chronicle viðurkennir Kongómaðurinn að Isiah Thomas þjálfari New York Knicks eigi stóran þátt í því að hann sé enn að spila.

"Hann sagði mér fyrir fjórum árum að ég væri búinn á því og ég hefði ekkert að gera í NBA lengur," sagði Mutombo, sem sárnaði mikið þessi ummæli.

"Ég er enn sár eftir þetta. Þessi maður sagði mér að ég gæti ekki spilað lengur en nú gæti þessi sami maður verið að missa vinnuna á morgun," sagði Mutombo.

Hinn aldni miðherji hefur reynst Houston vel síðan Yao Ming meiddist fyrir nokkrum vikum og hefur liðið unnið 12 af 15 leikjum síðan, ekki síst vegna þess hve Mutombo hefur gengið að fylla skarð Kínverjans.

"Það er eins og maðurinn fari í hýði á sumrin og komi alltaf stökkvandi til leiks eins og unglingur þegar leiktíðin hefst. Ég veit ekki hvað við í liðinu getum gefið til að sýna honum hversu mikils virði hann er fyrir okkur. Hvað gefur maður manni sem gæti verið móðir Teresa endurfædd," sagði félagi hans Shane Battier.

Mutombo hefur verið mjög ötull í góðgerðarmálum allan sinn feril og reisti m.a. sjúkrahús í heimalandi sínu í nafni móður sinnar. Í kvöld verða veitt sérstök fjárframlög til styrktar spítalanum hans í Kongó.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×