Körfubolti

Chris Webber leggur skóna á hilluna

Webber er hér ásamt þjálfara sínum Don Nelson sem þjálfaði hann á fyrsta og síðasta árinu sínu í deildinni
Webber er hér ásamt þjálfara sínum Don Nelson sem þjálfaði hann á fyrsta og síðasta árinu sínu í deildinni NordcPhotos/GettyImages

Framherjinn Chris Webber hjá Golden State Warriors hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla. Webber var valinn fyrstur af Golden State í nýliðavalinu árið 1993 og lauk ferlinum þar sem hann hóf hann.

Hinn 35 ára gamli Webber hafði ekki spilað síðan 2. mars vegna hnémeiðsla sinna, en hann hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ár vegna þessa. Hann spilaði aðeins níu leiki með Golden State í vetur eftir að hafa fengið sig lausan frá Detroit.

Webber lék með Golden State, Washington, Sacramento, Philadelphia og Detroit á 15 ára ferli sínum og var með 20,7 stig, 9,8 fráköst, 4,2 stoðsendingar, 1,4 varin skot og 1,4 stolinn bolta að meðaltali í leik yfir ferilinn.

Hann er einn af aðeins sex leikmönnum í sögu deildarinnar til að vera með yfir 20 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar að meðaltali yfir ferilinn.

Það var ESPN sem greindi frá þessu nú í nótt en búist er við að Webber tilkynni tíðindin formlega annað kvöld.

Smelltu hér til að sjá yfirlit yfir tölfræði Webber á ferlinum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×