Körfubolti

Houston hirti toppsætið í vestrinu með sigri á Lakers

Rafer Alston fór mikinn í 22. sigri Houston í röð
Rafer Alston fór mikinn í 22. sigri Houston í röð NordcPhotos/GettyImages

Ótrúlegt lið Houston Rockets í NBA deildinni vinnur enn. Í kvöld vann liðið 22. leik sinn í röð þegar það skellti LA Lakers á heimavelli 104-92 og tryggði sér toppsætið í Vesturdeildinni.

Houston hafði frumkvæðið í leiknum nánast frá fyrstu mínútu og bætti enn næstlengstu sigurgöngu í sögu NBA deildarinnar. Leikstjórnandinn Rafer Alston átti líklega besta leik sinn á ferlinum þegar hann skoraði 31 stig fyrir Houston og bætti fyrir frekar rólega frammistöðu Tracy McGrady - sem skoraði ekki stig í fyrri hálfleik og endaði með aðeins 11 stig.

Alston hitti úr 8 af 11 þristum sínum í leiknum og Bobby Jackson var líka heitur af bekknum og skoraði 19 stig. Þá var Shane Battier mjög mikilvægur Houston og skoraði 14 stig og náði að halda vel aftur af Kobe Bryant.

Bryant skoraði 24 stig í leiknum en hitti aðeins úr 11 af 33 skotum sínum. Lamar Odom skoraði 17 stig og hirti 11 fráköst fyrir Lakers.

Houston er nú í efsta sæti Vesturdeildar með 46 sigra og 20 töp, Lakers í öðru með 45 sigra og 21 tap og New Orleans í þriðja með 44 sigra og 21 tap.

Óvænt hetja skaut New Orleans í kaf 

New Orleans steinlá í Detroit í kvöld 105-83 þar sem liðið lék án stjörnuleikmannsins David West sem er meiddur á ökkla. Peja Stojakovic skoraði 21 stig og hirti 9 fráköst fyrir New Orleans og Chris Paul skoraði 14 stig og gaf 14 stoðsendingar.

Sigur Detroit var ekki síst að þakka varamanninum Chuck Hayes sem fór hamförum með 29 stigum og hitti úr 8 af 9 þristum. Chauncey Billups skoraði 17 stig fyrir Detroit sem situr sem fyrr í öðru sæti Austurdeildarinnar með 48 sigra og aðeins 18 töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×