Körfubolti

Maðurinn er puttabrotinn

Carmelo Anthony og Allen Iverson eru miklir mátar
Carmelo Anthony og Allen Iverson eru miklir mátar NordcPhotos/GettyImages

Framherjinn Carmelo Anthony hjá Denver fann sig knúinn til að leiðrétta fjölmiðlamann í nótt þegar hann var að tala um meiðsli bakvarðarins Allen Iverson.

Iverson átti stórleik með Denver í nótt þegar liðið burstaði Toronto 137-105 á heimavelli sínum. Hann hitti úr 9 af 12 skotum sínum og öllum 10 vítum sínum og skoraði 28 stig.

Iverson er stigahæsti leikmaður Denver með 26,6 stig að meðaltali í leik en Anthony kemur þar skammt á eftir með 25,5 stig.

Blaðamaður í búningsklefa Denver-liðsins sagði frammistöðu hins smáa en knáa Iverson aðdáunarverða í ljósi þess að Iverson væri að spila "slæmur í fingrinum."

"Hann er fingurbrotinn - ekki slæmur í puttanum. Vertu viss um að hafa það rétt," sagði Carmelo Anthony, sem sjálfur skoraði 22 stig í leiknum.

"Að maður skuli spila svona puttabrotinn sýnir bara hugarfar hans svart á hvítu, stolt hans og ást hans á leiknum," bætti Anthony við.

Denver er í harðri baráttu um áttunda og síðasta sætið inn í úrslitakeppni Vesturdeildarinnar, en hætt er við því að liðið verði að taka sig heldur betur saman í andlitinu ef það ætlar að hirða áttunda sætið af Golden State.

Efstu lið í Vesturdeildinni:

1. Lakers 45-20

2. Houston 45-20

3. New Orleans 44-20

4. Utah 44-23

5. San Antonio 44-21

6. Phoenix 43-22

7. Dallas 43-23

8. Golden St. 40-24

--------------------

9. Denver 39-26

10. Portland 34-32

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×