Körfubolti

LeBron James prýðir forsíðu Vogue

LeBron James og Gisele Bundchen
LeBron James og Gisele Bundchen

Körfuboltastjarnan LeBron James fær þann heiður í næsta mánuði að prýða forsíðu glanstímaritsins Vogue. Hann verður aðeins þriðji karlinn til að prýða forsíðu blaðsins auk þeirra George Clooney og Richard Gere.

Þetta er í þriðja skipti í 116 ára sögu blaðsins sem karlmaður prýðir forsíðuna og er þetta til marks um þá gríðarlegu athygli sem James nýtur í íþróttaheiminum í dag.

James hefur þegar setið fyrir á forsíðu flestra helstu tímarita í Bandaríkjunum og var meðal annars á forsíðu Sports Illustrated þegar hann var aðeins 17 ára gamall undir fyrirsögninni "Sá Útvaldi"

James hefur merkilegt nokk náð að standa undir öllum þeim væntingum sem til hans voru gerðar þegar hann kom inn í NBA deildina sem unglingur og er þegar orðinn einn besti - ef ekki besti körfuboltamaður á jörðinni.

Það verður ofurfyrirsætan Gisele Bundchen, kærasta leikstjórnandans Tom Brady hjá New England Patriots, sem situr fyrir með LeBron James í aprílhefti Vogue og er myndanna beðið með mikilli eftirvæntingu.

Richard Gere var á forsíðu Vogue ásamt konu sinni Cindy Crawford árið 1992 og Clooney sat einmitt fyrir með Gisele Bundchen árið 2000.

James er langstigahæsti leikmaður NBA deildarinnar með 30,9 stig að meðaltali í leik, 8,1 frákast og 7,4 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×