Körfubolti

Pierce er verðmætasti leikmaðurinn

Garnett hefur miklar mætur á félaga sínum Paul Pierce
Garnett hefur miklar mætur á félaga sínum Paul Pierce NordcPhotos/GettyImages

Kevin Garnett var einn þeirra sem framan af vetri voru taldir líklegastir til að verða útnefndir verðmætasti leikmaðurinn í NBA deildinni. Sá sem hlaut nafnbótina árið 2004 er hinsvegar ekki í vafa um hver eigi þann heiður skilinn í vor.

Garnett fékk þessa nafnbót þegar hann lék með Minnesota árið 2004, en meiðsli hafa hægt nokkuð á honum undanfarnar vikur. Hann sjálfur er ekki í neinum vafa um hver fær sitt atkvæði - félagi hans Paul Pierce hjá Boston.

"Paul er minn verðmætasti leikmaður í ár. Hann gerir svo mikið af litlum hlutum þarna úti sem fólk tekur ekki eftir. Það eru ekki nema þrír sóknarmenn í þessari deild sem ég hef gaman af að sjá spila sóknarleikinn og hann er einn þeirra. Hann lætur þetta líta út fyrir að vera svo auðvelt og hefur endalaust sjálfstraust. Ég sagði mönnum að það væru nokkrar ástæður fyrir því að ég ákvað að koma hingað í sumar - og Paul var sannarlega ein þeirra," sagði Garnett í samtali við Boston Globe.

Pierce er stigahæsti leikmaður Boston með 20,3 stig í leik á aðeins 37 mínútum. Hann hirðir þar að auki 5,3 fráköst, gefur 4,6 stoðsendingar og stelur 1,3 boltum í leik. Hann er eini leikmaðurinn sem hefur spilað alla leiki Boston í vetur.

"Þetta er líklega eitt besta tímabilið mitt á ferlinum," sagði Pierce í sömu grein, en hann er á sínu 10. ári í deildinni. "Kannski ekki hvað varðar tölfræði, en þetta er samt eitt af þeim bestu," sagði Pierce.

Boston hefur verið með besta vinningshlutfall allra liða í NBA deildinni í allan vetur og fátt virðist geta komið í veg fyrir að liðið verði með heimavallarrétinn alla úrslitakeppnina. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×