Körfubolti

Tveir sigrar á sama kvöldinu hjá Atlanta

Joe Johnson og félagar nældu í mikilvæga sigra í nótt
Joe Johnson og félagar nældu í mikilvæga sigra í nótt Nordic Photos / Getty Images

Lið Atlanta Hawks náði þeim sjaldgæfa áfanga í NBA deildinni í nótt að næla sér í tvo sigra á einu og sama kvöldinu. Liðið lagði Miami Heat tvívegis í gær þar sem liðin endurtóku síðustu 50 sekúndurnar úr framlengdri viðureign sinni í haust.

Þá kom upp sú staða að Shaquille O´Neal var fyrir mistök vísað af velli í framlengingunni þegar ritarar töldu hann hafa fengið sína sjöttu villu þegar hann var í raun aðeins að fá sína fimmtu villu.

Því var ákveðið að síðustu rúmar 50 sekúndur leiksins yrðu spilaðar aftur, en svo fór að lokum að hvorugu liðinu tókst að skora. Lið Miami mætti mikið breytt til leiksins í nótt og var auðvitað án Shaquille O´Neal sem er farinn til Phoenix síðan.

Lokastaðan í frestaða leiknum stóð því óbreytt og Atlanta vann leikinn 114-111.

Liðin spiluðu síðan hefðbundinn leik sinn strax á eftir og þar vann Atlanta aftur 97-94 og nældi sér fyrir vikið í tvo gríðarlega dýrmæta sigra í baráttunni um áttunda og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina í Austurdeildinni.

"Þessar 50 sekúndur voru rosalega furðulegar - en það var gaman að vera partur af þessu," sagði Dwyane Wade hjá Miami eftir leikinn.

Þetta var í fyrsta skipti síðan árið 1982 sem leikur er endurtekinn að hluta eða að fullu undir svipuðum kringumstæðum, en þegar það gerðist síðast var það lið Los Angeles Lakers sem þurftir að sætta sig við að tapa fyrir San Antonio í endurteknum leik. Þá var Pat Riley þjálfari Miami einmitt þjálfari Lakers-liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×