Körfubolti

Phoenix - Utah í beinni á Sýn í nótt

Deron Williams og Steve Nash eigast við í nótt
Deron Williams og Steve Nash eigast við í nótt NordcPhotos/GettyImages

Sjónvarpsstöðin Sýn verður með toppleik í beinni útsendingu frá NBA deildinni klukkan 2 í nótt þegar Phoenix Suns tekur á móti Utah Jazz. Þetta eru tvö lið í harðri toppbaráttu í Vesturdeildinni.

Lið Utah hefur verið á mikilli sigurgöngu síðan um áramótin og hefur unnið 23 af 29 leikjum sínum á árinu, en þó vantar enn nokkuð upp á að liðið hafi verið sannfærandi á útivöllum.

Phoenix hefur hikstað dálítið upp á síðkastið og hefur tapað þremur af fimm leikjum sínum síðan Shaquille O´Neal tók stöðu í byrjunarliðinu.

Í kvöld gefst áhorfendum tækifæri til að sjá einvígi leikstjórnendanna Steve Nash hjá Phoenix og Deron Williams hjá Utah, en þeir eru tveir af bestu leikmönnum heimsins í sinni stöðu.

Nash er tvöfaldur verðmætasti leikmaður deildarinnar, en hinn ungi Williams hefur verið vaxandi undanfarið og gaf m.a. 19 og 20 stoðsendingar í tveimur leikjum í röð á dögunum.

Lið Utah verður án Rússans Andrei Kirilenko í nótt en hann fór ekki með liðinu til Phoenix eftir að hafa meiðst í leik gegn Dallas á dögunum þar sem Dirk Nowitzki keyrði hann í gólfið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×