Fótbolti

Eiður Smári: Messi er einstakur og verður sárt saknað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi gengur tárvotur af velli í gær.
Lionel Messi gengur tárvotur af velli í gær. Nordic Photos / AFP

Eiður Smári Guðjohnsen segir að Lionel Messi skilji eftir sig stórt skarð í liði Barcelona sem afar erfitt verði að fylla.

„Leo er einstakur leikmaður, einn sá besti í heimi. Hann skilur eftir sig stórt skarð," sagði Eiður við spænska fjölmiðla. „Það er undir öðrum leikmönnum komið að nýta tækifærið sem nú býðst með fjarveru hans. En ég er ekki hrifinn af því að sjá menn lenda í meiðslum og sérstaklega ekki Leo. Hann er þannig leikmaður sem getur unnið leiki upp á sitt einsdæmi."

Hann sagði að loknum leik Barcelona og Celtic í Meistaradeildinni í gær að það væru blendnar tilfinniingar hjá leikmönnum liðsins. „Við óskum þess allir að Messi jafni sig fljótt og vel og allir leikmenn styðja við bak hans. En á hinn bóginn náðum við að komast áfram í næstu umferð Meistaradeildarinnar."

Eiður sagði að það skipti ekki máli hvaða liði Börsungar myndu mæta í fjórðungsúrslitum keppninnar. „Öll liðin sem komast svo langt í keppninni eru mjög sterk."

Miklar vangaveltur hafa verið um framtíð Frank Rijkaard hjá Barcelona og hefur Jose Mourinho, fyrrum stjóri Eiðs Smára hjá Chelsea, verið orðaður við stöðuna hans.

Sjálfur vildi Eiður ekki tjá sig um hvað gæti orðið í framtíðinni heldur ætti að sýna Rijkaard það traust og þá virðingu sem hann ætti skilið nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×