Körfubolti

Cassell genginn til liðs við Boston

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sam Cassell, verðandi leikmaður Boston Celtics.
Sam Cassell, verðandi leikmaður Boston Celtics. Nordic Photos / Getty Images

Sam Cassell hefur gengið frá félagaskiptum sínum til Boston Celtics eftir því sem umboðsmaður hans segir.

Cassell var búinn að fá sig lausan undan samningi sínum við LA Clippers og var því frjálst að ganga til liðs við annars félags. Það mun hann formlega gera í dag en umboðsmaður hans segir að það sé allt klappað og klárt.

„Hann þurfti að sinna nokkrum persónulegum málum í Baltimore þar sem það var dauðsfall í fjölskyldu hans. En hann er á leið til Boston og það er allt frágengið. Hann er virkilega spenntur fyrir þessu," sagði umboðsmaðurinn.

Ekki er búist við því að Cassell æfi með sínu nýja félagi fyrr en á morgun en óvíst hvort hann geti spilað með Boston gegn Detroit annað kvöld.

Cassell er 38 ára gamall og þykir góð viðbót við annars stjörnum prýtt lið Boston Celtics. Hann er afar reynslumikill leikmaður og þekkir það vel að vinna meistaratitla enda vann hann tvo slíka með Houston árin 1994 og 1995.

Hann hefur leikið 115 leiki í úrslitakeppninni á sínum ferli sem er mikilvægt fyrir Boston sem hefur ekki farið langt í úrslitakeppninni undanfarin ár.

„Þetta er leikmaður sem er löngu búinn að sanna sig," sagði Doc Rivers, þjálfari Boston. „Við þurfum bara að sjá hvernig hann passar best í liðið okkar. Hann kemur hingað með réttu hugarfari og vill bara hjálpa til ef hann getur."

Cassell hefur þó ekki spilað nema 38 leiki á tímabilinu en síðast spilaði hann leik þann 20. febrúar en hann hefur verið frá vegna úlnliðsmeiðsla.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×