Fótbolti

Arsenal hræðist ekki Milan

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fabregas í baráttunni í fyrri leiknum.
Fabregas í baráttunni í fyrri leiknum.

Cesc Fabregas, leikmaður Arsenal, segir að sínir menn mæti óttalausir til leiks í seinni leiknum gegn AC Milan. Fyrri leikurinn sem fram fór á Englandi endaði með markalausu jafntefli.

„Við höfum ungt lið en hræðumst ekkert og munum bara spila okkar leik. Það skiptir ekki máli hvort við séum að vinna eða tapa, við viljum alltaf spila sóknarbolta," sagði Fabregas.

AC Milan hefur aldrei tapað fyrir ensku liði á San Siro en í liðinu er einn besti knattspyrnumaður heims, hinn brasilíski Kaka. Um tíma var óvíst hvort hann gæti tekið þátt í leiknum vegna meiðsla en nú er ljóst að hann verður með gegn Arsenal.

Emmanuel Adebayor klúðraði dauðafæri í blálokin á fyrri leiknum. „Við áttum að skora úr því í fyrri leiknum og það var fúlt að ná ekki að skora þrátt fyrir yfirburði okkar. Þessu einvígi er langt frá því að vera lokið," sagði Fabregas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×