Erlent

Rússar kjósa eftirmann Putins

Óli Tynes skrifar

Rússar ganga að kjörborðinu í dag í forsetakosningum sem búist er við að leiði til þess að Vladimir Putin haldi áfram að stjórna landinu á bakvið tjöldin.

Skoðanakannanir benda til þess að hinn 42 ára gamli Dmitry Medvedev vinni góðan sigur. Putin valdi Medvedev sjálfur til þess að taka við sér sem forseti. Sjálfur tekur hann við embætti forsætisráðherra.

Sjötugur Moskvubúi sem Reuters fréttastofan ræddi við sagði að hann hefði kosið Medvedev vegna þess að hann væri ungur og gáfaður og myndi vinna vel með Putin.

Húsbændurnir í Kreml leggja mikla áherslu á að þáttaka í kosningunum verði góð, til þess að Medvedev vinni sem glæsilegastan sigur. Stefnt er að því að þáttakan verði að minnsta kosti 70 prósent.

Medvedev hefur ekki háð neina formlega kosningabaráttu. Hann hefur notið þess að miðstýrðir fjölmiðlarnir hampa honum mjög.

Hann hefur kosið að ferðast um landið og skoða nýbyggingar og framkvæmdir, með herskara rússneskra fjölmiðlamanna á hælum sér. Hann hefur neitað að koma fram í kappræðuþáttum með mótframbjóðendum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×