Körfubolti

Cleveland fær fjóra nýja leikmenn

Stóri-Ben Wallace er á leið til LeBron James og félaga í Cleveland
Stóri-Ben Wallace er á leið til LeBron James og félaga í Cleveland Nordic Photos / Getty Images

Cleveland fékk heldur betur liðsstyrk í NBA deildinni í kvöld þegar liðið fékk til sín fjóra nýja leikmenn á síðustu augnablikum félagaskiptagluggans í NBA deildinni.

Skiptin hafa ekki verið endanlega staðfest af deildinni en heimildamenn ESPN segja að Cleveland sé að fá þá Ben Wallace, Joe Smith og valrétt í nýliðavalinu frá Chicago og Delonte West og Wally Szczerbiak frá Seattle í stórum þriggja liða skiptum í kvöld.

Chicago fær þá Larry Hughes og Drew Gooden frá Cleveland, auk þeirra Shannon Brown og Cedric Simmons.

Hlutur Seattle í viðskiptunum er fyrst og fremst aukið vægi undir launaþakinu því liðið fékk til sín þá Ira Newble og Donyell Marshall frá Cleveland og Adrian Griffin frá Chicago - sem allir eru með samninga sem eru að renna út.

Ljóst er að þessi skipti ættu að styrkja lið Cleveland til muna og koma eins og þruma úr heiðskíru lofti rétt fyrir lokun gluggans. Það verður því mjög áhugavert að fylgjast með Austurdeildarmeisturum Cleveland fram á vorið, rétt eins og svo mörgum öðrum liðum sem hafa verið iðin við kolann á leikmannamarkaðnum að undanförnu.

Deildarkeppnin í NBA deildinni hefur ekki verið jafn spennandi í áraraðir og stefnir í hörðustu úrslitakeppni í manna minnum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×