Erlent

Milljónir fylgdust með tunglmyrkva

Óli Tynes skrifar

Á Stjörnufræðivefnum segir að tunglmyrkvar eigi sér stað þegar tunglið gengur inn í skugga jarðar á sama tíma og jörðin er stödd á milli sólar og tungls.

Þessi niðurröðun þýðir að tunglmyrkvi getur aðeins orðið þegar tunglið er fullt. Tunglmyrkvi á sér þó ekki stað í hverjum mánuði því brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ekki samsíða.

Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt yfir eða undir tunglið.

Skugga jarðar er skipt í tvo hluta, alskugga og hálfskugga. Alskugginn er dimmari en hálfskugginn mun daufari. Ef tunglið gengur inn í alskuggann, eins og nú í október, verður almyrkvi á tungli, en ef aðeins hluti af tunglinu er inni í alskugganum er myrkvinn kallaður deildarmyrkvi.

Þriðja tegund myrkva kallast svo hálfskuggamyrkvi en þá fellur einungis hálfskuggi jarðar á yfirborð tunglsins. Slíkir myrkvar eru nánast ósýnilegir.

Deildarmyrkvi er til þess að gera algengur en almyrkvi verður mun sjaldnar.

Því fylgdust milljónir manna með almyrkvanum síðastliðna nótt. Fólk hafði með sér myndavélar og sjónauka og það var víða hálfgerð partí stemming.

Næsti almyrkvi á tungli verður árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×