Körfubolti

Garnett vill ólmur fá að spila í kvöld

Kevin Garnett er klár í slaginn
Kevin Garnett er klár í slaginn Nordic Photos / Getty Images

Framherjinn Kevin Garnett hjá Boston Celtics vonast til að fá að spila á ný með liðinu í nótt þegar það sækir Denver heim í NBA deildinni, en hann hefur misst af síðustu níu leikjum liðsins vegna meiðsla.

Boston vann sjö af þessum níu leikjum, en Garnett hefur eðlilega verið sárt saknað í meiðslunum. Boston er á toppi deildarinnar með 41 sigurleik og aðeins 9 töp, en er nú að fara á erfiðasta útileikjaferðalag sitt á tímabilinu.

Garnett fékk góða hvíld um stjörnuhelgina og vill ólmur fá að spila í Denver í nótt. "Þið verðið að hjálpa mér að fá að spila," sagði Garnett við blaðamenn eftir síðustu æfingu hjá Boston. "Mér líður vel, en það er undir Doc þjálfara komið hvort ég fæ að spila," sagði Garnett.

Boston hefur náð frábærum árangri gegn liðum í Vesturdeildinni í vetur og hefur unnið alla 16 leiki sína gegn þeim til þessa.

Leikur Utah Jazz og Golden State Warriors verður sýndur beint á NBA TV sjónvarpsrásinni klukkan 2 eftir miðnætti í kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×