Körfubolti

NBA stjörnuleikurinn: Austrið lagði vestrið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
LeBron James og Carmelo Anthony eru hinir mestu mátar.
LeBron James og Carmelo Anthony eru hinir mestu mátar. Nordic Photos / Getty Images

Þó svo að vesturhluti NBA-deildarinnar sé talinn mun sterkari en austrið sáu Ray Allen og LeBron James til þess að austrið hefndi ófaranna frá því í fyrra.

Þá fóru Kobe Bryant og félagar á kostum er þeir skoruðu 153 stig gegn 132. Í ár var austrið hins vegar betra á öllum sviðum og unnu 134-128.

LeBron James var valinn maður leiksins en hann skoraði 27 stig auk þess sem hann var nálægt því að fá þrefalda tvennu. Hann gaf níu stoðsendingar og tók átta fráköst.

„Þeir fóru frekar illa með okkur í fyrra," sagði James. „Við vildum ekki að það myndi endurtaka sig. Við vildum vinna," bætti hann við.

Austrið skoraði sex fyrstu stigin í leiknum í gær og var með örugga forystu allt þar til í fjórða leikhluta en vestrið náði að jafna leikinn er sjö mínútur voru til leiksloka, 110-110.

Leikurinn var í járnum allt þar til LeBron stal boltanum þegar um mínúta var til leiksloka og tróð honum í kjölfarið. Chris Paul fékk svo dæmda á sig sóknarvillu í næstu sókn og Dwyane Wade kom austrinu í fjögurra stiga forystu. Þar með var sigurinn svo gott sem tryggður.

Ray Allen var stigahæstur stjarnanna úr austrinu en hann skoraði 28 stig. Troðslukóngurinn Dwight Howard skoraði sextán stig og þeir Wade og Chris Bosh skoruðu fjórtán hver.

Carmelo Anthony, Brandon Roy og Amare Stoudemire skoruðu átján stig hver fyrir vestrið og Chris Paul var með sextán stig.

Kobe Bryant kom við sögu í aðeins þrjár mínútur í leiknum og komst ekki á blað. Hann fór úr lið á fingri fyrr í mánuðinum og hafa læknar ráðlagt honum að fara í skurðaðgerð vegna þessa. Hann vill fresta því þar til tímabilinu er lokið.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×