Körfubolti

Gibson setti 11 þrista

Daniel Gibson frá Cleveland Cavaliers stal senunni í nótt í árlegum leik nýliða gegn annars árs mönnum um stjörnuhelgina í NBA deildinni. Gibson skoraði öll 33 stig sín úr þristum og var valinn maður leiksins í auðveldum 136-109 sigri annars árs manna.

Gibson var sjóðandi heitur, sérstaklega í fyrri hálfleiknum, þar sem hann skoraði sjö þrista og setti með því met í þessum viðureignum. Annars árs menn hafa unnið nýliðana sex ár í röð á þessum nýlega viðburði um stjörnuhelgina. Segja má að þetta hafi verið fín upphitun fyrir Gibson, því hann tekur þátt í þriggja stiga skotkeppninni í kvöld.

Rudy Gay frá Memphis skoraði 22 stig fyrir annars árs mennina, LaMarcus Aldridge frá Portland 18 og hirti 9 fráköst, Jordan Farmar frá LA Lakers skoraði 17 stig og gaf 12 stoðsendingar og Brandon Roy frá Portland var með 17 stig og 7 stoðsendingar.

Kevin Durant frá Seattle var atkvæðamestur hjá nýliðunum með 23 stig og 8 fráköst, Al Horford frá Atlanta var með 19 stig og 7 fráköst og Sean Williams frá New Jersey var með 17 stig og 10 fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×