Sport

Ísland tapaði fyrir Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir.
Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atladóttir. Mynd/Völundur

Ísland tapaði í dag fyrir Þýskalandi á Evrópumóti landsliða í badminton sem fer fram í Hollandi, 5-0.

Ragna Ingólfsdóttir og Tinna Helgadóttir töpuðu báðar sínum viðureignum gegn afar sterkum andstæðingu. Það var því undir Söru Jónsdóttir komið að halda lífi í íslenska liðinu með sigri í síðasta einliðaleiknum.

Þar mætti hún Karin Schnaase og vann fyrstu lotuna 21-19. Schnaase svaraði með því að vinna næstu lotuna, 21-11.

Þetta var fyrsta lotan sem Þýskaland tapaði á mótinu en því miður dugði það ekki til. Schnaase vann oddalotuna og þar með viðureignina.

Sara komst í 12-10 forystu en Schnaase vann þá uppgjafarréttinn og lét hann aldrei af hendi. Hún vann lotuna 21-12.

Báðar viðureignirnar í tvíliðaleiknum töpuðust svo nokkuð stórt. Ragna og Katrín Atladóttir léku saman annars vegar og þær Sara og Tinna hins vegar.

Þar með er ljóst að Þýskaland tryggði sér sigur í A-riðli og kemst þannig í fjórðungsúrslit keppninnar. Ísland lendir í öðru sæti riðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×