Körfubolti

Níu sigrar í röð hjá Detroit

Chauncey Billups tók til sinna ráða í fjórða leikhlutanum gegn Atlanta
Chauncey Billups tók til sinna ráða í fjórða leikhlutanum gegn Atlanta Nordic Photos / Getty Images

Detroit Pistons vann í nótt níunda leik sinn í röð í NBA deildinni þegar liðið skellti Atlanta á útivelli 94-90 í hörkuleik. Rasheed Wallace skoraði 21 stig fyrir Detroit og Chauncey Billups skoraði 12 af 16 stigum sínum í lokaleikhlutanum. Josh Smith skoraði 30 stig fyrir Atlanta.

Þetta var níundi sigur Detroit í röð og ef liðið vinnur næsta leik verður það fyrsta liðið í NBA í vetur til að ná tveimur 10 leikja sigurhrinum. Detroit situr örugglega í öðru sæti Austurdeildarinnar á eftir Boston.

Boston vann sigur á Indiana á útivelli í nótt 104-97 þar sem Paul Pierce skoraði 28 stig og hirti 12 fráköst, en Danny Granger skoraði 18 stig og hirti 10 fráköst fyrir Indiana.

Denver færði Miami áttunda tapið í röð með 114-113 sigri á útivelli í framlengdum leik. JR Smith skoraði 28 stig fyrir Denver, þar af átta þrista, en Dwyane Wade skoraði 29 stig fyrir heimamenn.

Shawn Marion skoraði 23 stig og hirti 18 fráköst fyrir Miami sem er það mesta sem liðsmaður Miami hefur hirt af fráköstum í leik í vetur, en hann á líka metið sem andstæðingur Miami þegar hann hirti 24 fráköst gegn liðinu fyrr í vetur sem liðsmaður Phoeinx. Þetta var 23. tap Miami í síðustu 24 leikjum og hefur liðið aðeins unnið einn leik síðan 22. desember á síðasta ári.

New Jersey lagði Minnesota á heimavelli 92-88. Vince Carter skoraði 17 stig og gaf 10 stoðsendingar fyrir New Jersey en Sebastian Telfair skoraði 17 stig fyrir Minnesota.

Memphis vann sjaldgæfan sigur þegar liðið lagði Sacramento á heimavelli 107-94. Kevin Martin skoraði 33 stig fyrir Sacramento en Hakim Warrick skoraði 24 stig og hirti 13 fráköst fyrir Memphis.

Loks vann New Orleans öruggan útisigur á Chicago 100-86. Peja Stojakovic og David West skoruðu 27 stig fyrir New Orleans og Chris Paul skoraði 25 stig og gaf 14 stoðsendingar, en Andres Nocioni skoraði 28 stig fyrir Chicago.

Staðan í NBA 

NBA bloggið á Vísi 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×