Körfubolti

NBA í nótt: Boston vann San Antonio

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Pierce, leikmaður Boston.
Paul Pierce, leikmaður Boston. Nordic Photos / Getty Images
Sjö leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt þar sem Boston vann góðan sigur á San Antonio, 98-90.

Paul Pierce skoraði 35 stig fyrir Boston og Ray Allen var með nítján stig.

Tim Duncan var stigahæstur hjá San Antonio með 22 stig auk þess sem hann tók fjórtán fráköst. Manu Ginobili bætti við 21 stigi.

San Antonio var þremur stigum undir þegar rúm mínúta var til leiksloka og fékk Michael Finley tækifæri til að jafna metin en hann missti marks. Boston kláraði svo leikinn með 8-3 spretti.

Phoenix vann nauman sigur á Washington, 108-107, þar sem Amare Stoudemire skoraði úr tveimur vítaköstum þegar sjö sekúndur voru til leiksloka. Þetta var sjöunda tap Washington í röð.

Stoudemire var með 31 stig í leiknum auk þess sem hann tók þrettán fráköst. Antawn Jamison skoraði 28 stig fyrir Washington og tók tíu fráköst.

LA Lakers vann tíu stiga sigur á Miami, 104-94, en þetta var fyrsti leikur Shawn Marion með síðarnefnda liðinu. Hann gerði fimmtán stig í leiknum og tók fjórtán fráköst en það dugði ekki til.

Kobe Bryant var með 33 stig en þetta var sjöunda tap Miami í röð og það 22. í röðinni af síðustu 23 leikjum liðsins.

New Jersey vann óvæntan og góðan sigur á Dallas, 101-82, fyrst og fremst þökk góðum 21-0 spretti í lok fyrri hálfleiks og upphafi þess síðari. Þá breytti liðið stöðunni úr 34-40 í 55-40. Vince Carter var með 29 stig fyrir New Jersey.

Denver vann stóran sigur á Cleveland, 113-83, þrátt fyrir að LeBron James skoraði 30 stig fyrir síðarnefnda liðið. Carmelo Anthony skoraði 27 stig fyrir Denver.

Detroit vann Charlotte, 113-87. Tayshaun Prince var með 21 stig fyrir Detroit sem vann sinn áttunda sigur í röð en Charlotte tapaði sínum sjötta í röð.

Toronto vann Minnesota á útivelli, 105-82. Andrea Bargnani var með sextán stig fyrir Toronto og Jose Calderon fimmtán stig og tíu fráköst.
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×