Körfubolti

Spurningum um Shaq verður svarað í kvöld

Miðherjinn Shaquille O´Neal hjá Miami er sagður vera á leið til Phoenix í læknisskoðun í kvöld og þar ræðst væntanlega hvort verður af félagaskiptum hans og Shawn Marion sem greint var frá í nótt.

Sagt er að samkomulag liggi fyrir milli félaganna og aðeins eigi eftir að koma O´Neal í gegn um læknisskoðun. Hann hefur átt við þrálát meiðsli að stríða í vetur og því kemur skoðunin til með að ráða því hvort af þessum óvæntu viðskiptum verður.

Svo skemmtilega vill til að leikur Phoenix og New Orleans er einmitt sýndur beint á NBA TV sjónvarpsstöðinni á Fjölvarpinu í kvöld og þar fást væntanlega svör við öllum þessum vangaveltum í beinni útsendingu klukkan tvö eftir miðnætti.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þessa stórfrétt í NBA deildinni síðan hún lak út í gærkvöldi, en sérfræðingar í Bandaríkjunum eru flestir agndofa yfir þessum tíðindum.

Shaquille O´Neal hefur alls ekki spilað vel í vetur og hefur þar að auki átt við mikil og erfið meiðsli að stríða. Hann verður 36 ára í vor og á eftir tvö ár af risasamningi sínum þegar þessu tímabili lýkur.

Menn spyrja sig hvernig í ósköpunum svona stór og hægur maður eigi að passa inn í hraðan leikstíl Phoenix Suns.

Það er hinsvegar ljóst á þessum tíðindum að forráðamenn Phoenix Suns hugsa "það er nú eða aldrei" og ætla að tjalda öllu til að vinna titilinn í ár. Það hefur hingað til ekki tekist með þeim mannskap sem fyrir var hjá liðinu, en hvað sem segja má um það - hefur atburðarás síðustu daga á leikmannamarkaðnum sett hlutina verulega upp í loft í Vesturdeildinni.

Los Angeles Lakers fékk Spánverjann Pau Gasol til liðs við sig á dögunum og þykir liðið nú til alls líklegt í úrslitakeppninni. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×