Sport

Greene leggur skóna á hilluna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maurice Greene er hættur.
Maurice Greene er hættur. Nordic Photos / Getty Images

Spretthlauparinn Maurice Greene hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna vegna þrálátra meiðsla. Hann stefndi að því að keppa á Ólympíuleikunum í Peking í sumar.

Greene er 33 ára gamall og hefur átt við erfið meiðsli að stríða undanfarin tvö ár. Hann hefur tvívegis unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikunum, bæði árið 2000 í Sydney.

Þá vann hann gull í 100 m spretthlaupi sem og 4 x 100 m boðhlaupi. Hann vann svo silfur í sama boðhlaupi í Aþenu árið 2004 og brons í 100 m spretthlaupi.

Hann vann sex heimsmeistaratitla á árunum 1997 til 2001. Þar af þrjá í 100 m hlaupi og einn í 200 m hlaupi.

Greene hefur nú ákveðið að snúa sér að þjálfum og öðrum verkefnum. „Þetta er auðvitað frekar leiðinlegt þar sem mér hefur gengið vel á mínum ferli. Þetta er líka Ólympíuár og ég vildi svo sannarlega taka þátt á þeim. En nú hef ég ákveðið að segja þetta gott og leyfa öðrum að láta ljós sitt skína."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×