Körfubolti

Wallace stóð við stóru orðin

Rasheed Wallace sækir að Dirk Nowitzki
Rasheed Wallace sækir að Dirk Nowitzki Nordic Photos / Getty Images

Detroit burstaði Dallas 90-67 í síðari leik kvöldsins í NBA deildinni í körfubolta. Rasheed Wallace var besti maður Detroit með 21 stig og 9 fráköst, en hann gaf út djarfar yfirlýsingar í viðtölum fyrir leikinn.

Hann sagði að Dallas liðið væri ekki með neina stóra menn og því ætluðu hans menn að ganga frá því með því að dæla boltanum inn í teiginn. Það gekk eftir og Wallace fór á tíðum illa með Dirk Nowitzki og félaga í teignum.

"Hann getur ekki dekkað mig," öskraði hinn yfirlýsingaglaði Wallace í átt að varamannabekk Dallas þegar hann skoraði yfir Nowitzki í eitt skiptið. Wallace varði auk þess fjögur skot í leiknum. Tayshaun Prince skoraði 16 stig fyrir Detroit.

Dallas hitti aðeins úr 30% skota sinna í leiknum og var þetta langlægsta stigaskor liðsins í leik í vetur.

Nowitzki skoraði 15 stig og hirti 10 fráköst í leiknum en hitti aðeins úr þremur af 18 skotum sínum í leiknum. Josh Howard félagi hans í framlínu Dallas var á svipuðum nótum með 15 stig og 9 fráköst, en hitti aðeins úr sex af sautján skotum sínum.

Fyrr í kvöld vann LA Lakers góðan sigur á Washington á útivelli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×