Sport

Tsonga mætir Nadal í undanúrslitum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jo-Wilfried Tsonga er kominn í undanúrslit á opna ástralska.
Jo-Wilfried Tsonga er kominn í undanúrslit á opna ástralska. Nordic Photos / AFP

Rafael Nadal og Jo-Wilfried Tsonga mætast í undanúrslitum á opna ástralska meistaramótinu í tennis.

Báðir unnu þeir viðureignir sínar í dag, 3-0. Nadal bar sigurorð af Finnanum Jarkko Nieminen (7-5, 6-3 og 6-1) en Frakkinn Tsonga kemur enn á óvart með góðu gengi á mótinu.

Hann vann í dag Rússann Mikhael Youzhny 7-5, 6-0 og 7-6 og síðasta settið 8-6 í bráðabana.

Fyrir mótið er 32 sterkustu tennisköppum mótsins raðað í sæti samkvæmt styrkleika og var Tsonga ekki á meðal þeirra. Youzhn var í fjórtánda sæti en fyrir hafði Tsonga unnið landa sinn Richard Gaquet sem var í áttunda sæti og Bretann Andy Murray sem var í níunda sæti.

Hingað til hefur hann lengst komið í fjórðu umferð á stórmóti í tennis en það var á Wimbledon-mótinu í fyrra.

Þetta er í annað skipti sem hann keppir á opna ástralska en í fyrra datt hann út í fyrstu umferð.

Á morgun fara fram síðari viðureignirnar í fjórðungsúrslitunum. Roger Federer mætir James Blake frá Bandaríkjunum og Serbinn Novak Dokovic mætir David Ferrer frá Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×