Sport

New England og New York mætast í Superbowl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lawrence Tynes skoraði 47 metra vallarmark í framlengingu og tryggði um leið New York sæti í Superbowl.
Lawrence Tynes skoraði 47 metra vallarmark í framlengingu og tryggði um leið New York sæti í Superbowl. Nordic Photos / Getty Images
Þau óvæntu úrslit urðu í úrslitum Ameríkudeildarinnar í nótt að New York Giants vann sigur á Green Bay Packers í framlengdum leik.

Lawrence Tynes breyttist úr skúrki í hetju á augabragði er hann skoraði úr 47 metra vallarmarki í framlengingu og tryggði þar með New York sigur, 23-20.

Hann hafði tvívegis klúðrað vallarmarkstilraunum í venjulegum leiktíma, þar af á lokasekúndum fjórða leikhluta af mun styttra færi.

New York mætir New England í úrslitum NFL-deildarinnar, Superbowl.

New England Patriots vann sigur á San Diego Chargers í gærkvöldi, 21-12.

Þar með vann New England sinn átjánda sigur í röð á tímabilinu en ekkert lið hefur unnið nítján leiki á einu og sama tímabilinu í sögu NFL-deildarinnar.

Það var kalt á báðum stöðum í nótt en þó sérstaklega á Lambeau Field þar sem var 20 gráðu frost. Með vindkælingu var boðið upp á 31 gráðu frost.

Þetta eru mikil vonbrigði fyrir Brett Favre, leikstjórnanda Green Bay, sem ætlaði sér að komast í þriðja skiptið í Superbowl. Síðast lék hann þar fyrir áratug síðan.

Hann átti þó glæsileg tilþrif og átti sendingu sem gaf af sér 90 metra snertimark.

Úrslitaleikurinn, Superbowl, fer fram í Arizona þann 3. febrúar næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×