Körfubolti

Það er búið að skipta þér til New York

Barbosa brá í brún þegar honum var sagt að hann væri á leið til New York
Barbosa brá í brún þegar honum var sagt að hann væri á leið til New York NordicPhotos/GettyImages

Brasilíumaðurinn Leandro Barbosa hjá Phoenix Suns í NBA deildinni fékk áfall á þriðjudagskvöldið þegar gert var símaat í honum á Beverly Hills hótelinu.

Barbosa hafði skráð sig inn á hótelið undir réttu nafni, en slíkt tíðkast ekki meðal NBA leikmanna þegar þeir eru á ferðalögum. Einhver háðfuglinn greip þetta tækifæri á lofti, hringdi í Barbosa og sagði honumað Steve Kerr framkvæmdastjóri Suns sæti niðri í anddyri og vildi finna hann - því búið væri að skipta honum til New York Knicks.

Hinn grunlausi Barbosa beit á agnið og trúði sögunni. Hann hljóp niður í anddyrið og leitaði ákaft af forráðamönnum liðsins og leitaði skýringa á þessari ráðstöfun.

Þar var honum fljótlega komið í skilning um að hann hefði verið gabbaður, en ljóst er að fæstir leikmenn í NBA deildinni í dag myndu kæra sig um að spila fyrir lið New York Knicks.

"Hjartað í mér tók kipp og gerir það í hvert skipti sem einhver talar um leikmannaskipti. Þetta er mitt lið og ég missti mig aðeins," sagði Barbosa.

Dan D´Antoni, bróðir þjálfarans Mike D´Antonio og starfsmaður hjá liðinu, sagði Barbosa að vera ekki svona barnalegur.

"Ég sagði Barbosa að reyna að nota höfuðið og skrá sig ekki á eigin nafni inn á hótel. Ég spurði hann hvort hann héldi virkilega að ég myndi bíta á agnið ef einhver hringdi í mig upp á herbergi og segði mér að ég ætti milljón dollara í afgreiðslunni?"

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×