Körfubolti

NBA í nótt: Góðir sigrar Detroit og Utah

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tayshaun Prince skýtur að körfunni.
Tayshaun Prince skýtur að körfunni. Nordic Photos / Getty Images

Detroit Pistons og Utah Jazz unnu góða sigra í leikjum sínum í NBA-deildinni í nótt. Þá vann Sacramento sigur á Memphis.

Detroit vann tíu stiga sigur á NBA-meisturum San Antonio, 90-80, eftir að hafa leitt með fimmtán stiga mun strax eftir fyrsta leikhluta. San Antonio náði aldrei að brúa það bil á nýjan leik.

Rasheed Wallace átti stórleik fyrir Detroit og skoraði 23 stig og tók fimmtán fráköst. Richard Hamilton skoraði átján og Taushaun Prince bætti við sautján.

Hjá San Antonio var Tim Duncan stigahæstur með 24 stig en hann tók fimmtán fráköst þar að auki. Tony Parker var með tólf stig og Jacque Vaughn tíu.

Utah Jazz átti heldur í engum vandræðum með Phoenix Suns í nótt en síðarnefnda liðið var reyndar án margra sterkra leikmanna.

Utah var með tíu stiga forystu í hálfleik og vann þriðja leikhlutann með sextán stiga mun, 28-12. Niðurstaðan var 22 stiga sigur, 108-86.

Steve Nash var heima veikur með flensu en Grant Hill og Shawn Marion voru frá vegna meiðsla.

Stigahæstur hjá Utah var Mehmet Okur með 22 stig og hann tók sautján fráköst þar að auki. Ronnie Brewer var með 21 stig og Deron Williams var með sautján stig og ellefu fráköst.

Að síðustu vann Sacramento nauman sigur á Memphis á heimavelli, 116-113.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×