Sport

Þjálfari Washington Redskins hættur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joe Gibbs gengur af velli eftir að hafa stýrt sínum mönnum til sigurs gegn Dallas í lok síðasta mánaðar.
Joe Gibbs gengur af velli eftir að hafa stýrt sínum mönnum til sigurs gegn Dallas í lok síðasta mánaðar. Nordic Photos / Getty Images

Joe Gibbs, þjálfari Washington Redskins í NFL-deildinni, hefur sagt starfi sínu lausu hjá félaginu.

Washington komst í úrslitakeppnina með því að vinna síðustu fjóra leiki sína í deildinni en tapaði þar í fyrstu umferð fyrir Seattle Seahawks.

Hann verður þó áfram starfandi hjá félaginu sem sérstakur ráðgjafi fyrir eigandann Dan Snyder.

Gibbs var þjálfari liðsins frá árinu 2004 en það var þá í annað skiptið sem hann þjálfaði liðið. Fyrra skiptið var á árunum 1981 til 1992 en á þeim tíma vann liðið þrjá meistaratitla.

Tímabilið var þó erfitt fyrir Gibbs og liðið í heild sinni þar sem einn leikmanna þess, Sean Taylor, var skotinn til bana á heimili sínu í Miami í nóvember síðastliðnum.

Gibbs hefur einnig átt við erfiðleika að stríða í einkalífi sínu en tveggja ára barnabarn hans greindist með hvítblæði fyrir ári síðan.

Washington hefur þegar hafið leit af arftaka Gibbs en þeir sem helst þykja koma til greina eru Gregg Williams og Al Saunders sem voru báðir aðstoðarþjálfarar Gibbs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×