Erlent

Er Gro Harlem skattsvikari?

Óli Tynes skrifar
Gro Harlem Brundtland.
Gro Harlem Brundtland.

Norskir fjölmiðlar velta því mjög fyrir sér hvort Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra, sé stórfelldur skattsvikari.

Brundtland er nú framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. En hefur fundið sér fleiri matarholur.

Norska Dagbladet upplýsti í gær að hún þægi meðal annars laun frá Pepsi Cola fyrir ráðgjöf. Þau laun eru greidd í Frakklandi og talin fram þar en ekki hjá norska skattinum.

Sömu sögu er að segja um greiðslur sem Brundtland fær fyrir að flytja erindi. Hún er skráð hjá fyrirtæki í Lundúnum sem heitir Celebrity Speakers. Það útvegar frægt fólk til fyrirlestrahalds um allan heim.

Þar er Brundtland í félagi við fólk eins og Michael Gorbachev, Jimmy Carter og fyrsta tunglfarann, Neil Armstrong.

Brundtland fær um þrjár og hálfa milljón króna fyrir hvern fyrirlestur og þær tekjur eru einnig gefnar upp í Frakklandi. Þetta segja norskir fjölmiðlar að geti verið brot á norskum lögum.

Það er ekki óalgengt að forsætisráðherrar og aðrir framámenn komist fyrst í álnir þegar þeir láta af embætti. Einmitt með fyrirlestrahaldi og ráðgjöf.

Þannig hafa til dæmis Bill Clinton og Tony Blair margfaldar þær tekjur sem þeir höfðu meðan þeir leiddu þjóðir sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×