Erlent

Passið ykkur útlendingar

Óli Tynes skrifar
Roland Koch.
Roland Koch.

Háttsettur flokksbróðir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, varaði innflytjendur í dag við því að þeir verði að laga sig að þýsku þjóðfélagi eða taka afleiðingunum. Roland Koch er forsætisráðherra í Hesse sem er með auðugri héruðum landsins.

Hann reitti innflytjendur til reiði fyrr í þessari vikuna þegar hann sakaði útlendinga um að eiga sök á aukinni afbrotatíðni unglinga. Koch dregur þó ekkert í landi í grein sem hann skrifar í blaðið Bild, í dag.

Þar segir hann meðal annars; "Á svæðum þar sem er mikill fjöldi innflytjenda verða að vera skýrar reglur og auðvitað afleiðingar ef þeim er ekki fylgt.

Þýska verður að vera tungumálið í daglegu lífi og það verður að vera ljóst að það er ekki í samræmi við okkar siði að drepa dýr í eldhúsinu. Né heldur undarlegar hugmyndir um hvernig á að losa sig við rusl."

Aðspurður hvað hann meinti um ruslið, sagði aðstoðarmaður Kochs; "Það er fólk sem losar sig við rusl á annan hátt en við hin. Þeir sem lesa grein hans vita hvað hann á við. Ruslinu er bara hent hvar sem er."

Mikil umræða hefur verið um innflytjendur í Þýskalandi frá því um hátíðarnar eftir að sást í öryggismyndavélum hvar tveir unglingar, annar grískur en hinn tyrkneskur misþyrmdu þýskum eftirlaunaþega á brautarpalli. Þýskar sjónvarpsstöðvar hafa sýnt þær myndir aftur og aftur.

Það búa um 15 milljónir innflytjenda í Þýskalandi. Þar af eru 3.2 milljónir múslima sem flestir eru upprunnir í Tyrklandi. Opinberar tölur sýna að hlutdeild útlendinga í afbrotum í Þýskalandi minnkar stöðugt. Hún var 34 prósent árið 1993 en 22 prósent árið 2006.

Þetta á við heildina. Engar sérstakar tölur eru til sem sýna sérstaklega afbrot unglinga af erlendum uppruna. Engu að síður birti Bild uppsláttarfrétt við hliðina á grein Kochs með fyrirsögninni; "Ungir útlendingar ofbeldisfyllri en þýskir."

Fréttin byggði á rannsókn afbrotafræðings í Hanover.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×