Fótbolti

Begiristain vill fá niðurstöðu í mál Eto'o

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Samuel Eto'o, leikmaður Barcelona.
Samuel Eto'o, leikmaður Barcelona. Nordic Photos / AFP

Txiki Begiristain, yfirmaður tæknimála hjá Barcelona, vill helst fá niðurstöðu um hvort Samuel Eto'o verði áfram hjá félaginu áður en forkeppni Meistaradeildar Evrópu hefst.

Pep Guardiola nefndi Eto'o sem einn þriggja leikmanna sem ættu sér ekki framtíð hjá félaginu undir hans stjórn. Hinir, Ronaldinho og Deco, eru báðir horfnir á braut.

„Dagarnir líða fljótt og markaðurinn er að loka. Ef það verður einhver niðurstaða í þessu máli væri best að fá hana á hreint áður en við spilum í forkeppni Meistaradeildarinnar," sagði hann.

Barcelona mætir annað hvort Beitar Jerúsalem eða Wisla Krakow í þriðju umferð forkeppninnar en fyrri leikirnir fara fram 12. og 13. ágúst og þeir síðari tveimur vikum síðar.

Riðlakeppni Meistarardeildarinnar hefst svo dagana 16. og 17. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×