Körfubolti

Þúsundasti sigur Sloan með Jazz

219 þjálfarar í NBA hafa fengið að taka pokann sinn á þeim tíma sem Sloan hefur stýrt Jazz
219 þjálfarar í NBA hafa fengið að taka pokann sinn á þeim tíma sem Sloan hefur stýrt Jazz NordicPhotos/GettyImages

Jerry Sloan þjálfari Utah Jazz stýrði liði sínu til sigurs í þúsundasta skipti á ferlinum þegar það lagði Oklahoma Thunder í nótt.

Ferill Sloan hjá Utah spannar nú tvo áratugi og er hann fyrsti þjálfarinn í sögu NBA deildarinnar til að vinna þúsund leiki með sama liðinu. Næstur á eftir honum í þeim efnum er Red Auerbach heitinn sem stýrði Boston til 795 sigra á sínum tíma.

Fæstir þjálfarar í NBA deildinni ná því að sitja hjá sama liðinu í heilt kjörtímabil hjá forseta Bandaríkjanna, en Sloan hefur gert talsvert betur en það. Hann hefur verið þjálfari Jazz út kjörtímabil feðga á forsetastól.

Sloan tók við liði Utah í desember árið 1988, eða um það bil mánuði áður en George Bush eldri tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum.

Bill Clinton leysti hann síðar af hólmi og eftir nokkrar vikur lætur svo George Bush yngri af embætti. Ljóst er að Sloan mun enn sitja í þjálfarastólnum hjá Utah þegar Barack Obama tekur við embætti sínu.

Þess má til gamans geta að yngsti leikmaður Utah Jazz var ekki fæddur þegar Sloan tók við liðinu á sínum tíma. Hann hefur stýrt liðinu í úrslitakeppnina 17 sinnum og 16 ár í röð (1988-2004) var liðið með betra en 50% vinningshlutfall. Það hafa verið 219 þjálfaraskipti í NBA síðan Sloan tók við Jazz.

Sloan vann fyrstu 94 sigra sína sem þjálfari þegar hann var hjá Chicago Bulls áður en hann tók við Utah en aðeins fjórir þjálfarar í sögu NBA hafa unnið fleiri leiki á ferlinum - þeir Lenny Wilkens, Don Nelson og Pat Riley.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×