Viðskipti innlent

Allir hafa áhuga á gjaldeyrisforðanum

Áhættuálag erlends lánsfjár hefur ratað inn í verðmyndun skiptasamninga á gjaldeyrismarkaði og eytt vaxtamun milli Íslands og annarra myntsvæða.
Áhættuálag erlends lánsfjár hefur ratað inn í verðmyndun skiptasamninga á gjaldeyrismarkaði og eytt vaxtamun milli Íslands og annarra myntsvæða.

Margir hafa gripið það á lofti í umræðunni um vandræðin í efnahagslífi þjóðar­innar að auka þurfi gjaldeyrisforða Seðlabankans. Það er ekki langt síðan sú umræða komst á verulegt flug. Áður höfðu fáir fjallað um nauðsyn þess að hafa hér stóran gjaldeyrisforða nema einstaka fræðimenn og pólitíkusar.

Þar sem Seðlabankinn starfar eftir verðbólgumarkmiði á ekki að vera þörf á stórum gjaldeyrisforða samkvæmt hagfræðinni – að því gefnu að markaðir séu skilvirkir. Bankinn einbeitir sér eingöngu að því að halda verðlagi stöðugu með stýrivöxtum. Í einföldu máli hefur það áhrif á gengi krónunnar í gegnum framboð og eftirspurn eftir gjaldmiðlinum. Bein inngrip á gjald­eyrismarkaði eru algjör undantekning við sérstakar aðstæður samkvæmt núverandi peningastefnu Seðlabanka Íslands sem tekin var upp árið 2001. Áður hafði bankinn yfirlýst gengismarkmið með vikmörkum.

Skiptar skoðanir eru á því af hverju þessi mikla umræða blossar upp nú. Í fyrsta lagi veldur kreppa á lánsfjármarkaði því að fjármálafyrirtæki þurfa að hafa öflugan lánveitanda til þrautavara. Það er eitt af meginhlutverkum seðlabanka í heiminum. Þá er minni hætta á að þeir lendi í lausafjárvandræðum, sem á að veita þeim betri kjör á alþjóðlegum lánamörkuðum.

Bankarnir of stórir

Vegna þess hversu stórir íslensku bankarnir eru efast margir um getu Seðlabanka Íslands til að sinna þessu hlutverki skilmerkilega. Hafa alþjóðleg matsfyrirtæki meðal annars bent á þennan vanda. Að auki hafa stjórnendur Seðlabankans lýst því yfir að þeir muni einungis geta lánað í íslenskum krónum. Stór hluti af starfsemi bankanna er erlendis og því þurfa þeir erlendan gjaldeyri fyrst og fremst lendi þeir í vandræðum. Ef Seðlabankinn vildi bjarga þeim um stundarsakir þyrfti hann líka að búa yfir öflugum gjaldeyrissjóði.

Viðskiptabankarnir vonast einnig til að geta fengið erlendan gjaldeyri lánaðan hjá Seðlabankanum og lagt í staðinn inn veð í íslenskum verðbréfum ýmiss konar. Þetta er sérstaklega mikilvægt núna fyrir bankana þegar gjaldeyrir er dýr og erfitt að fá lán á sæmilegum kjörum. Þetta myndi líka leysa vanda sem skapast hefur á innlendum markaði með gjaldmiðlaskiptasamninga. Sá markaður hefur þurrkast upp vegna mikillar eftirspurnar eftir gjaldeyri. Vaxtamunur í útlöndum hefur hrunið og er það ein meginástæða fyrir gengislækkun krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×