Sport

Ragna vann í maraþonviðureign

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragna Ingólfsdóttir.
Ragna Ingólfsdóttir. Mynd/GVA

Ragna Ingólfsdóttir er komin áfram í aðra umferð í einliðaleik kvenna á Evrópumeistaramótinu í badminton.

Ragna bar sigurorð af hinni ítölsku Agnese Allegrini í sannkallaðri maraþonviðureign en leikurinn stóð yfir í 55 mínútur.

Ragna tapaði fyrstu lotunni naumlega, 21-19, en svaraði með því að vinna þá næstu með 21 stigi gegn sextán.

Oddalotan var jöfn framan af en í stöðunni 9-9 skoraði Ragna tvö stig í röð og lét forystuna aldrei aftur af hendi. Hún komst í 16-12 og fagnaði svo sigri, 21-15.

Þetta var gríðarlega öflugur sigur hjá Rögnu þar sem Allegrini er í 41. sæti á styrkleikalista Alþjóða badmintonsambandsins en Ragna er í 59. sæti.

Ragna mætri Sarah Walker frá Englandi í næstu umferð á morgun en hún er í 193. sæti á áðurnefndum styrkleikalista.

Á styrkleikalista Badmintonsambands Evrópu er Allegrini í fjórtánda sæti, Ragna í 22. sæti og Walker í 80. sæti.

Nú er að hefjast viðureign Katrínu Atladóttur og Jeanine Cicognini frá Sviss en fleiri Íslendingar verða í eldlínunni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×