Körfubolti

NBA í nótt: San Antonio lagði Denver

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tony Parker og félagar lögðu Denver í nótt.
Tony Parker og félagar lögðu Denver í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Tveir leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. San Antonio vann Denver og Dallas lagði Phoenix.

San Antonio vann Denver, 108-91. Chauncey Billups átti aldrei þessu vant fremur slakan dag en síðan hann kom til Denver frá Detroit hafði félagið unnið tólf af fimmtán leikjum sínum.

Tony Parker var stigahæstur hjá San Antonio með 22 stig og þeir Manu Ginobili og Tim Duncan voru með 21 stig hvor. Duncan var þar að auki með tólf fráköst og sjö stoðsendingar.

Sigur San Antonio var öruggur en staðan í hálfleik var 61-41. Denver náði aldrei að ógna forystu San Antonio að nokkru ráði.

Carmelo Anthony var stigahæstur hjá Denver með sextán stig og JR Smith kom næstur með fimmtán og tíu fráköst.

Dallas vann Phoenix, 112-97, þar sem Dirk Nowitzky fór á kostum og skoraði 37 stig í fyrstu þremur leikhlutunum og alls 39 í leiknum öllum. Rétt eins og í hinum leiknum var sigur Dallas aldrei í hættu en staðan í hálfleik var 64-46.

Steve Nash og Shaquille O'Neal léku með Phoenix á ný í nótt eftir að hafa misst af síðustu tveimur leikjum vegna meiðsla og veikinda.

Amare Stoudemire skoraði flest stig í liði Phoenix eða 28 talsins. Nash kom næstur með 20 stig og tíu stoðsendingar. O'Neal skoraði ekki nema fjögur stig og tók fimm fráköst á þeim 26 mínútum sem hann lék í leiknum.

Hjá Dallas skoraði Jason Terry nítján stig og Jose Barea átján. Erick Dampier var einnig góður og skoraði níu stig og tók fjórtán fráköst.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×