Sport

Henin að hætta?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Justine Henin.
Justine Henin. Nordic Photos / Getty Images

Svo gæti farið að Justine Henin tilkynni í dag að hún muni leggja tennisspaðann á hilluna.

Boðað hefur verið á blaðamannafund í dag í höfuðstöðvum belgíska tennissambandsins þar sem umfjöllunarefnið verður ferill hennar og framtíð.

Belgískum fjölmiðlum ber ekki saman um hvað hún muni tilkynna. Talið er að hún gæti hætt umsvifalaust, eftir opna franska meistaramótið í næsta mánuði eða jafnvel eftir Ólympíuleikana í Peking. Þá er því einnig haldið fram að hún gæti einungis verið að taka sér nokkra mánaða frí frá keppni.

Henin sagði á heimasíðu sinni í síðustu viku að hún væri búin að jafna sig á meiðslum sínum og gæti æft eðlilega. Hún tapaði þó í annarri umferð opna þýska meistaramótsins í síðustu viku og dró sig úr keppni á opna ítalska meistaramótinu vegna þreytu. Var hún sektuð um 20 þúsund evrur vegna þessa.

Henin, sem er 25 ára gömul, er í efsta sæti styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins í einliðaleik kvenna og er með talsverða forystu á Mariu Sharapova sem er í öðru sæti. Hún hefur unnið sjö risamót í tennis en þó aldrei náð að fagna sigri á Wimbledon-mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×