Erlent

Íslendingur leiðir hjálparstarf Microsoft í Búrma

Guðjón Helgason skrifar

Íslendingi hefur verið falið að leiða hjálparstarf bandarískra tölvurisans Microsoft á hamfarasvæðunum í Búrma. Hans verkefni verður að tengja hjálparsamtök á vettvangi og nærri honum saman með nýjustu tækni.

Talið er að um tvær milljónir Búrmabúa eigi um sárt að binda eftir að fellbylurinn Nargis fór yfir landið fyrir rúmri viku. Hjálparsamtök segja að hjálpargögn hafi aðeins borist til um þriðjungs þeirra sem þurfi.

Flugvélar með hjálpargögn lentu í höfuðborginni Rangoon í dag, þar á meðal ein frá Bandaríkjunum, sú fyrsta þaðan.

Herforingjastjórnin heldur enn við fyrri áform um að sjá sjálf um að dreifa þeim og tregðast enn við að hleypa erlendum hjálparstarfsmönnum inn í landið.

Bill Gates, stjórnarformaður og stofnandi bandaríska tölvurisans Microsoft, tilkynnti fyrir helgi að fyrirtæki hans ætlaði eftir besta mætti að styðja við starf þeirra stofnana sem tækju þátt í hjálparstarfi í Búrma.

Gísli Rafn Ólafsson, starfsmaður Microsoft á Íslandi, er einn stjórnenda alþjóðasveitar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og meðlimur í alþjóðlegu neyðarhjálparteymi Sameinuðu þjóðanna, hefur fengið það hlutverk að leiða þetta verkefni fyrir Microsoft.

„Við erum ekki sérfræðingar í því að veita neyðaraðstoð," segir Gísli Rafn. „Við erum sérfræðingar í hinum ýmsu tölvulausnum og hugbúnaðarlausnum og samskiptalausnum."

Gísli Rafn segir að þar sem finna megi vandamál á borð við það að hjálparstofnanir eigi erfitt með að dreifa upplýsingum sín á milli geti Microsoft komið til og hjálpað með sinni tækni.

Gísli Rafn er í Taílandi þar sem flest hjálparsamtök sem vilja hjálpa í Búrma eru með höfuðstöðvar á svæðinu. Hann segist ekki eiga von á að fara inn í Búrma þar sem Microsoft sé bandarískt fyrirtæki og viðskiptabann í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×