Enski boltinn

Ronaldo sagður á leið til Real í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ronaldo-Real-flækjan hefur tekið á sig enn eina myndina.
Ronaldo-Real-flækjan hefur tekið á sig enn eina myndina. Nordic Photos / Getty Images

Spænskt dagblað hélt því fram í dag að Real Madrid sé búið að ganga frá samkomulagi um að félagið kaupi Cristiano Ronaldo frá Manchester United næsta sumar.

Ronaldo var sterklega orðaður við Real Madrid í sumar en ekkert varð úr því að hann færi þangað. Mikið var fjallað um málið og reyndi Calderon að lægja öldurnar með því að segja að félagið ætlaði sér ekki að reyna að fá Ronaldo að svo stöddu.

Hins vegar hefur nú spænskt dagblað greint frá samtali sem Pedro Trapote, náinn samstarfsfélagi Calderon, átti við ónafngreindan mann eftir leik Real Madrid og Barcelona um síðustu helgi. Samtalið var tekið upp.

„Ef þú ert að spyrja mig hvað við ætlum að gera nú þá get ég sagt þér að við höfum þegar samið við besta leikmanninn sem kemur nú í sumar," er haft eftir Trapote.

„Ertu að meina Cristiano?" var svarið.

„Þann besta af þeim bestu. Það er Cristiano og enginn annar. Við skulum þó ekki hafa hátt um þetta."

„Af hverju má ekkert segja um þetta? Það væri kannski viðeigandi nú fyrst gengið hefur verið slæmt. Ekki veitti af jákvæðum fréttum."

„Nei, það er best að segja sem minnst. Það eru klásúlur í samningnum sem gera það að verkum að við getum ekkert sagt. Það myndi henta okkur vel að segja frá því nú en við ættum ekki að gera það. En þetta hljómar samt ágætlega, er það ekki?"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×